144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[17:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og innleggið í þessa umræðu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji það ekki skipta máli hvort við séum með einkahlutafélag þar sem lagaramminn er þannig að hlutverk félagsins er að sjá til þess að eigendurnir græði, eða hvort um sjálfseignarstofnun sé að ræða þannig að hagnaðurinn verði til þess að nemendur, aðbúnaður þeirra og skólastarfið njóti ef það er einhver hagur eða afgangur af rekstrinum. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því í hæstv. ríkisstjórn, af því að hæstv. menntamálaráðherra boðaði áðan að hér ætti að fara í heildarendurskoðun á lagaumgjörð sjálfstæðra eða einkarekinna grunnskóla, að þar verði tekið á rekstrarforminu og tekið fyrir þann vanda sem við höfum horft upp á framhaldsskólastiginu? Reyndar getur það alveg eins gerst á grunnskólastiginu. Að vísu er talað um á grunnskólastiginu að nemendur greiði ekki fyrir skyldunámið, þannig að það er kannski svolítið önnur staða. Samt sem áður vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í viðhorf hennar varðandi rekstrarformið og hvort hún muni beita sér fyrir því í ríkisstjórn að það verði á ákveðinn hátt.