144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[17:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Hæstv. ráðherra talar um ávinning, það sé ávinningur af fjölbreyttu rekstrarformi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að ávinningurinn sé bæði faglegur og fjárhagslegur og hvort hæstv. ráðherra geti ekki líka nefnt dæmi um vel rekna skóla í opinbera kerfinu.

Við erum með vel rekna grunnskóla úti um allt land sem sveitarfélögin reka og gera fjárhagsáætlun fyrir og hafa aðkomu að gögnum til þess að geta skoðað reksturinn, og það þarf að áætla fé og það kemur í gegnum sveitarsjóðinn. Ef við erum hins vegar með einkarekinn grunnskóla hefur sveitarfélagið ekki eins góðan aðgang að bókum skólans. Telur hæstv. ráðherra að það gæti verið vandamál þarna þegar kemur að rekstrarsjónarmiðunum? Þegar kemur að faglegu sjónarmiðunum sé ég ekki sem fagmaður á þessu sviði að það sé endilega faglegur ávinningur af því það sé einhver annar aðili en opinber sem reki stofnunina. En það er gaman að fá að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra.