144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[17:53]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný fyrir fyrirspurnina. Mér finnst það mjög áhugavert sem hv. þingmaður kemur með hér. Ég tel að svarið við báðum spurningunum sé já, en með þeim fyrirvara að fjárhagslegi ávinningurinn í mínum huga má aldrei vera gagnvart rekstraraðilunum heldur til þess að hægt sé að bjóða börnunum upp á betri þjónustu, að ávinningur af rekstrinum skili sér aftur inn í reksturinn og hann verði enn öflugri.

Ég held ég hafi nefnt það í fyrra svari mínu að ég hef mjög góða reynslu af skólum sem eru reknir af sveitarfélögum. Ég hef líka slæma reynslu af skólum sem hafa verið reknir á vegum sveitarfélaga. Það sem ég held að sé mikilvægt hér eru auknir valkostir fyrir foreldra. Fyrir nokkrum árum síðan, áður en maður fór virkilega að leggjast yfir menntamálin, hafði maður þá sýn að það væri aðeins ein námskrá sem hægt væri að bjóða, þetta væri nám í sjálfu sér.

Eftir því sem maður hefur kynnt sér málin betur og þá þróun sem hefur átt sé stað sér maður að nám getur náttúrlega verið ofboðslega fjölbreytt. Það var svolítið tilfinningin þegar ríkið var fyrst að færa grunnskólana yfir til sveitarfélaganna að sveitarfélögunum væri ekki treyst til að taka við verkefninu. Þá var reynt að ramma betur inn hvað ætti að bjóða upp á í námi í staðinn fyrir að hvetja til þess og horfa til þess að hægt er að læra sama hlutinn á margvíslegan máta. Ég get því ekki tekið undir að ekki sé faglegur ávinningur af því að bjóða upp á fjölbreytni í námi.