144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[17:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög en ég hlýt að láta þá skoðun mína í ljós, sem hefur næstum því hellst yfir mig í þessari umræðu, að þau tvö frumvörp sem hæstv. menntamálaráðherra hefur talað fyrir virðast ekki mjög byltingarkennd. Mér hafði sannast segja ekki dottið í hug að ég ætti eftir að verða svona hugsi yfir þeim kl. þrjú í dag.

Við sjáum það í frumvarpinu sem hann talar fyrir núna í seinna skiptið að það að færa stjórnvaldsákvörðunina, valdið, úr ráðuneytinu inn í stofnun er ekki einfalt og sniðugt mál. Það þarf náttúrlega að hugsa í þaula hvernig á að gera, hvert hægt sé að áfrýja, hvaða stjórnvaldsákvarðanir nákvæmlega þetta eiga að vera. Þetta má ekki vera svona: Við ætlum að flytja hóp af fólki þannig að fólkið sem eftir verður í ráðuneytinu geti sinnt stefnumótun.

Þetta er grafalvarlegt mál. Það er grafalvarlegt mál að stofna þessa stofnun. Ég held að nefndin þurfi að fara mjög vel yfir það.

Síðan er það seinna frumvarpið og menn segja: Jú, jú, einkaskólar eru leyfðir, það er ekki verið að breyta neinu hér. Það má reka — og ég er ekki að gera lítið úr starfinu, alls ekki — skólann á Tálknafirði. Það segir í lögunum og við erum aðeins að gera það skýrar. Við erum einfaldlega að gera það auðveldara að gera þetta á miklu fleiri stöðum, ef menn vilja.

Við erum að tala um grunnstoð í landinu okkar, menntunina, menntun barnanna, og það á við bæði um innihald og hvernig þetta er rekið og af hverjum, og þann rétt sem við höfum öll til þess að börnin geti farið í góða skóla. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er mjög hugsi yfir því af hverju það liggur á að leggja fram þetta frumvarp um grunnskólann og af hverju þetta er ekki tekið inn í heildarendurskoðun, sem hæstv. ráðherrann segir að standi fyrir dyrum.

Nú er ég alls ekki með neina fordóma eða fyrir fram gefna skoðun á því hvort skólar eigi að vera einkareknir eða ekki. Auðvitað er opinbera kerfið og opinberir skólar grunnstoðin í þessu þjóðfélagi. Því vil ég alls ekki breyta. Ég vil alls ekki breyta því, en ef það er hægt að auka fjölbreytni með einkaskólum þá skoðum við það. Það má þó náttúrlega ekki vera gert þannig að það gerist sjálfkrafa og menn geti með því sótt opinbert fé til starfseminnar eins og þeim þóknast. Það þarf að fylgjast gífurlega vel með því.

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að þetta er stórmál sem við erum með til umræðu.