144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[18:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar síðara atriðið vísa ég enn og aftur til c-liðar 2. gr. þar sem kveður á um möguleika sveitarfélagsins til þess að taka yfir, þannig að ef það verður einhvers konar forsendubrestur í starfsemi þess fyrirtækis sem rekur skólann hafi sveitarfélagið óskoraðan rétt til að grípa inn í. Hvað varðar eigendaskipti og annað slíkt er auðvitað í lófa lagið fyrir sveitarfélagið að kveða á um það í samningum að ef um slíkt sé að ræða geti það haft ákveðnar afleiðingar eða slíkt geti ekki gerst án þess að sveitarfélagið gefi sitt samþykki o.s.frv. Sveitarfélagið er í öllum færum með að skilgreina það eftir hentugleika.

Hvað varðar fyrri spurninguna um greiðslu arðs þá er ég almennt þeirrar skoðunar að það sé ekki verra að möguleiki sé á arðgreiðslu en ég er sammála hv. þingmanni að það er kannski nokkuð annað í þeirri stöðu sem er uppi, að það þarf að huga vel að því og þess vegna er lagt upp með það hér að viðkomandi sveitarfélag hafi nokkurt svigrúm hvað það varðar. Það getur auðvitað sett það sem skilyrði í samningum sínum að það sé ekki gert. Sveitarfélögin núna, hvað varðar eigin starfsemi, geta auðvitað ef þau vilja dregið úr og reynt að komast þannig hjá rekstri skólahaldsins að það sé sem minnstum fjármunum veitt til þeirrar starfsemi. Það hefur ekki verið raunin. Grunnskólastigið er það skólastig sem er hvað best fjármagnað á Íslandi og í þjónustusamningum er hægt að gera mjög vel grein fyrir því til hvers er ætlast og hvernig skuli staðið að rekstrinum þannig að fullnægjandi sé og réttur barnanna sé tryggður. Og enn og aftur, virðulegi forseti, þetta frumvarp gengur út á það að að gefnu því lagaástandi sem er núna uppi sé þetta því til fyllingar og skýringar (Forseti hringir.) þannig að réttur barnanna sé í fyrirrúmi.