144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:41]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í 7. gr. þessa lagafrumvarps segir:

„Ef nýtt náttúrufyrirbæri þarfnast nafns ber viðkomandi sveitarstjórn að hafa frumkvæði að nafngift að fenginni umsögn örnefnanefndar. Utan stjórnsýslumarka sveitarfélaga liggur frumkvæði að nafngift hjá ráðherra. Tillögu að nýju nafni ber að senda ráðherra til staðfestingar.“

Það virðist vera þannig að gert sé ráð fyrir að frumkvæðið að nýrri nafngift sé hjá sveitarstjórn en að fenginni umsögn örnefnanefndar. Það var einhvern veginn þannig — ég finn nú ekki alveg það sem að þessu sneri í athugasemdum með frumvarpinu en mátti einhvern veginn skilja það þannig, já, að gert sé ráð fyrir því „að örnefnanefnd skuli skila rökstuddu áliti til hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna innan þriggja vikna frá því að erindi berst nefndinni. Þá skal nefndin senda afrit af áliti sínu til ráðherra sveitarstjórnarmála.“

Ég held að fara þurfi mjög vandlega yfir þessi ákvæði í frumvarpinu áður en það er afgreitt og ég treysti því að það verði gert í meðförum — til hvaða nefndar fer þetta mál, fer það til allsherjarnefndar? Já. Ég treysti því að nefndin muni fara mjög vandlega fyrir það. Mér finnst, eins og fram hefur komið í máli mínu, vera nokkur álitaefni í frumvarpinu sem er full ástæða til að við hér í þinginu förum mjög vandlega yfir. Ég er ekkert að hafna þessu svona holt og bolt án þess að hafa fengið umsagnir um málið. En það eru nokkur atriði sem vekja vissulega spurningar eins og hér hefur komið fram.