144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[19:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að taka fram að hér er um að ræða umsagnir, en það skiptir máli hvað hlutirnir heita. Varla sæjum við það til dæmis fyrir okkur að hreppsnefndin í Reykjavík tæki ákvörðun um það, það mundi nú verða mál ef hreppsnefndin hér tæki ákvörðun um að breyta heitum sem eru hluti af þjóðarsögunni, á Austurvelli eða öðru slíku, sem skiptir okkur öll máli, hvort sem við búum í Reykjavík eða ekki. Það þyrfti þá að rökstyðja það alveg sérstaklega og ég mundi ekki vilja hafa það þannig að bara af því að allt í einu myndaðist einhver undarlegur meiri hluti í borginni væri þar með hægt að strika yfir slíka sögu með einu pennastriki.

Ég held því að það sé ekki með nokkrum hætti til trafala eða valdi nokkrum vandkvæðum að leitað sé umsagna með þessum hætti. Ég ítreka að það ferli sem búið er að setja upp í frumvarpinu er til einföldunar. Það er sjálfsagt að skoða það betur, en það verður líka að vera tryggt að þau markmið sem sett eru fram með frumvarpinu glatist ekki og það verði hægt að ná þeim. (Forseti hringir.) Einföldunin má ekki verða til þess að við sköpum (Forseti hringir.) í raun og veru (Forseti hringir.) nýtt flækjustig.