144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[19:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að sú breyting sem varð á götuheitum sem hv. þingmaður vísaði til, að með það allt hafi verið farið með þeim hætti sem lög kveða á um. Í því frumvarpi sem hér er lagt fram eru í sjálfu sér ekki nein nýmæli hvað þetta varðar.

Ég tel að ástæða sé til að hafa um þessi mál ákveðið fyrirkomulag lögbundið. Ég held að augljóst sé að taka þarf, og undan því verður ekki komist, ákvarðanir um örnefni og heiti. Af hverju þarf þess? Það þarf meðal annars vegna þess að það getur skipt máli í landamerkjadeilum og augljóslega skiptir það máli varðandi kortagerð. Í gildi eru lög um hvernig skuli staðið að því. Og það hefur ekki valdið okkur neinum vandræðum hingað til.

Það sem er nýmæli hér og ég tel til bóta er að þegar kemur að nafngiftum nýrra náttúrufyrirbæra þá er það fólkið sem býr nálægt því örnefni sem tekur ákvörðunina, fólk heima í héraði, vissulega með umsögn og aðkomu örnefnanefndarinnar. En ég tel þetta framför frá því sem áður hefur verið, til dæmis því fyrirkomulagi sem við höfum séð nýlega dæmi um, bæði gömul dæmi og ný, þar sem ráðherra skipar nefnd til að gefa nýju náttúrufyrirbæri nafn. Þá er það ekki fólkið heima í héraði sem gerir það heldur slík nefnd. Ég hef bent á það áður að ég held að það vinnuferli hafi ekki átt sér stoð í lögum.

Þetta er ekki dæmi um stjórnlyndi eða fyrirkomulag Ráðstjórnarríkjanna heldur er verið að reyna að tryggja það að við verndum örnefnin okkar, breytingar séu gerðar að yfirlögðu ráði og með rökstuddum hætti og síðan hvernig skuli haldið utan um það þegar um er að ræða ný örnefni.