144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[19:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hér er átt við er alls ekki það að ráðherra geti ekki sett á laggirnar nefndir. Reyndar má alveg velta fyrir sér hvort það væri nú ekki ástæða að festa í lög einhverjar takmarkanir á því, slíkt er nefndafarganið sem á okkur dynur.

Það sem ég á við hérna er að til staðar er ákveðið lögformlegt ferli um það hvernig skuli gefið ákveðið nafn. Það hefur verið þannig að nafn getur myndast og það geta verið mismunandi skoðanir á því hvað fyrirbærið á að heita. Síðan er það þessarar nefndar samkvæmt núgildandi lögum að skera úr um það og taka ákvörðun. Það er svolítið annað ferli en þegar ráðherra setur sérstaka nefnd um að gefa ákveðnu náttúrufyrirbæri nafn. Það er aðeins önnur nálgun, það er það sem ég á við. Ég er ekki að hafa neinar áhyggjur af því að hér hafi verið með stórkostlegum hætti brotin lög eða eitthvert vandamál hafi hlotist af. Ég er bara að segja: Þegar verklagsreglur eru ekki skýrar er miklu meiri hætta á því að ráðherrar grípi til slíks.

Samkvæmt frumvarpinu verður það þannig þegar um er að ræða nýtt náttúrufyrirbæri þá er það fólkið á staðnum sem tekur ákvörðun um það. Mér finnst það miklu betra fyrirkomulag en hitt.