144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirra orða sem hér féllu frá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur vil ég segja að þessi tillaga kom ekki fram með neinni andarteppu í atvinnuveganefnd í morgun eins og hér var lýst. Það var einfaldlega tillaga meiri hluta nefndarinnar að skoða fjóra virkjunarkosti til viðbótar við þá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir. Við teljum að við förum fyllilega að lögum um rammaáætlun og því hlutverki sem verkefnisstjórnin hefur þar. Verkefnisstjórnin skilaði sinni tillögu til ráðherra. Það er gert ráð fyrir því að ef ráðherra gerir breytingar á tillögu verkefnisstjórnar, sem er samkvæmt lögunum ráðgefandi nefnd fyrir ráðherra í þessu, fari þær í umsagnarferli þannig að við teljum eðlileg þau vinnubrögð sem vanalega eru viðhöfð hér við breytingartillögur. Þær eru ekkert sérstaklega sendar til umsagnar en við gerum það í þessu tilfelli og það var bara ákvörðun í morgun. Við sendum tillögu um að fjórir kostir verði skoðaðir til viðbótar með það að markmiði að setja þá í nýtingarflokk (Forseti hringir.) og umsagnarfrestur var gefinn fram undir miðjan febrúar (Forseti hringir.) í þessum málum.