144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Með lögum skal land byggja. Hér er mikil skammsýni á ferðinni af hálfu meiri hlutans í hv. nefnd því að hér er klárlega verið að fara á skjön við gildandi lög. Menn settu á Alþingi lög um það hvernig eigi að standa að ákvörðun um virkjanamál til þess að reyna að draga úr þeim áratugalöngu deilum sem hafa skipt þjóðinni í fylkingar í þessum málum og til þess að reyna að skapa frið, bæði um virkjanastarfsemi og um náttúruvernd í landinu. Hér er einfaldlega verið að sprengja upp þá sátt. Ég krefst þess að forsætisnefnd Alþingis sé kölluð saman og fari yfir þessar æfingar hv. nefndar því að það er klárlega gegn ákvæðum laganna að standa með þessum hætti að málum. Þótt meiri hlutinn geti breytt lögum verða menn auðvitað að leggja fram frumvarp, flytja það og bera það í gegnum þrjár umræður en ekki reyna að snúa þetta hér milli umræðna fyrirvaralaust (Forseti hringir.) og án þess að hafa mál á dagskrá um jafn veigamiklar ákvarðanir og raun ber vitni. Það verður aldrei til farsældar fallið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)