144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:47]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vil nefna í þessu sambandi, í fyrsta lagi vinnulagið. Í annað skipti kemur meiri hluti atvinnuveganefndar eða formaðurinn sjálfur bakdyramegin með þetta mál. Það hefur ekki verið á dagskrá fundanna sem um ræðir og við í minni hluta höfum ekki fengið rými til að tjá okkur um málið eða skoða það af því að breytingartillagan svokallaða er ekki komin til. Við vitum ekki hvað nákvæmlega er verið að ræða um. Þetta er einhver hugmynd eins og hæstv. forseti nefnir og ég velti fyrir mér hvernig hugmynd fari í umsagnarferli. Hver er hugmyndin? Hverjir eru kostir hennar og gallar? Hver eru rökin fyrir henni? Þetta liggur ekki fyrir. Ég sé ekki hvernig þingið getur afgreitt málið svona.