144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vildi líka gjarnan vita hvort það væri regla og hægt að hafa það við almennt að senda hugmyndir í umsagnir. Eru það þau vinnubrögð sem við eigum að fara að tíðka á Alþingi? Hv. formaður atvinnuveganefndar leggur upp með það, og eigum við þá að feta í fótspor hans og leggja fram ýmsar hugmyndir og setja í umsagnarferli? Svona tillögur þurfa að hafa einhverja lögformlega stöðu. Að reyna að koma þessu inn bakdyramegin er með ólíkindum miðað við viðbrögðin sem urðu 27. nóvember þegar meiri hluti atvinnuveganefndar kom fram með þá ruddalegu tillögu að bæta við þannig að alls yrðu átta virkjunarkostir lagðir til án þess að það færi í gegnum verkefnisstjórn. Alþingi verður að stoppa svona vitleysu áður en þetta fer að ganga út í einhverja endaleysu. Það er ekki boðlegt, eins og stundum hefur verið sagt úr þessum ræðustól, fyrir hv. Alþingi að viðhafa þessi vinnubrögð.