144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það virðist vera alveg sérstakt keppikefli margra þessa dagana að skapa sem mestan ófrið á sviði umhverfismála. Hv. þm. Jón Gunnarsson hefur tekið að sér að vera yfirhershöfðingi í þeim ófriðarleiðangri. Sömu daga er Landsvirkjun að reyna að troða einum 25 virkjunarkostum inn í vinnu rammaáætlunar, þar á meðal fjölmörgum í verndarflokki sem orkufyrirtækin hafa ekki einu sinni beðið um að verði metnir, og Vegagerðin og Landsnet að reyna að leggja af stað með háspennulínu og uppbyggðan veg við Sprengisand. Það horfir nú ekki mjög friðlega.

Varðandi hina lögformlegu stöðu þessa máls getur Alþingi að sjálfsögðu breytt lögum sem það hefur sett enda sé það rétt gert og viðhafðar þrjár umræður en Alþingi getur ekki ýtt skýrum ákvæðum gildandi laga til hliðar og haft þau að engu með þingsályktun. Eigum við að samþykkja þingsályktunartillögu á morgun um að grunnskólalögin gildi ekki og við ætlum að hafa þau að engu? Það sjá auðvitað allir menn að slíkur málatilbúnaður er ekki samboðinn vinnubrögðum Alþingis og hann stenst ekki. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega þannig. Ef menn vilja hafa það þannig að Alþingi taki bara (Forseti hringir.) geðþóttaákvarðanir um þessi mál skulu menn fyrst setja lög um það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)