144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að verða við því að efna til fundar bæði með formönnum þingflokka og forsætisnefnd í hádegishléi. Ég geri þá ráð fyrir að hádegishléið verði lengra en ella þar sem hálftíminn mun væntanlega ekki duga til að fara yfir málið á báðum stöðum.

Hér er ekki bara á ferðinni lögbrot, hér er ekki bara verið að fara gegn ákvæðum laga um rammaáætlun. Hér er verið að breyta Alþingi í einhvers konar leynisamkomu. Það er verið að brjóta á alþingismönnum með algerlega fáheyrðum hætti og ég krefst þess að forseti rísi til varnar fyrir þingmenn hér í salnum. Stórmál af þessu tagi er ekki tekið á dagskrá nefndarinnar heldur í laumi eins og það sé hægt að sitja fyrir alþingismönnum með óvæntum og óundirbúnum tillöguflutningi þeim algerlega óforvarandis, komið á óvart að morgni dags án þess að nokkur hafi um það vitað, ekki einu sinni stjórnarliðarnir. (Forseti hringir.) Það eru vinnubrögð sem eru svo algerlega fyrir neðan allar hellur að ég treysti á að forseti Alþingis geri menn afturreka með þennan óskunda.