144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Er það ekki eiginlega með ólíkindum að við séum komin í þessa umræðu aftur? Átti þessa umræða sér ekki stað í lok nóvember? Það er ekki furða þó að fólk haldi stundum að við séum bara eins og biluð plata. Hvers vegna í ósköpunum viðgengst það að formaður nefndar endurtaki vinnubrögð af þessu tagi sem ég held að séu ólögleg?

Það verður náttúrlega að þakka forseta það að boða til fundar í hádeginu um þetta mál. Er ekki búið að vera mánaðarjólafrí sem kallað er, sem er náttúrlega ekki út af fyrir sig jólafrí, það er hlé á þingstörfum hér í sal, en var ekki hægt að tala formann atvinnuveganefndar til á þeim tíma um það að viðhafa hér ekki ólögleg vinnubrögð? Ef stjórnarmeirihlutinn ætlar að efna til illinda vikulega verði honum að góðu, en ég treysti forseta til að koma í veg fyrir svona lagað.