144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[11:11]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég held að það liggi orðið nokkuð ljóst fyrir að með ákvörðun sinni í morgun er meiri hluti atvinnuveganefndar að brjóta lög í landinu. Því hefur enginn mótmælt. (Gripið fram í.) Reyndar kom hv. þm. Páll Jóhann Pálsson hér upp í þá vörn að segja að í stað þess að hann hafi ætlað sér að brjóta lögin átta sinnum hafi hann ákveðið að brjóta þau aðeins fimm sinnum og beðist vægðar þess vegna og því sé þetta allt í lagi og hægt að sættast á það, ná málamiðlun um að lögin verði þá aðeins brotin fimm sinnum en ekki átta sinnum.

En hvar eru þeir þingmenn sem voru kallaðir inn úr öðrum nefndum til að afgreiða þetta mál hér í morgun? Kallaður var út þingmaður úr utanríkismálanefnd, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, til að afgreiða þetta mál. Hver er hans afstaða í málinu? Af hverju standa þessir þingmenn hér ekki sem bera mestu ábyrgðina á þessari vitleysu? Ég undanskil auðvitað hv. þm. Jón Gunnarsson því að hann gerir ekkert nema vitleysu. Hvar eru þeir núna? Af hverju standa þeir ekki hér og verja gjörðir sínar og útskýra hvers vegna í ósköpunum (Forseti hringir.) þeir lögðu þessu vitlausa máli lið?