144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[11:13]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að þeir sem hæst hefðu hér hefðu verið fyrstir til að brjóta samkomulag. Menn voru að tala um að verið væri að brjóta samkomulag þar sem allur þingheimur var sammála um rammaáætlun þá tíð. (Gripið fram í: Þetta eru lög.) (Gripið fram í: Ekki samkomulag.) Að brjóta lögin átta sinnum eða fjórum sinnum, það voru ekki mín orð áðan. Ég vitnaði í orð hv. þm. Kristjáns L. Möllers sem var að tala um hvort við gætum ekki sæst á málamiðlun. Ég spurði þá: Hvað er það annað en málamiðlun að í stað þess að koma með átta kosti að koma með fjóra kosti? Hvað er málamiðlun, hvaða skilning leggja menn í það orðalag, málamiðlun? En að senda fjóra kosti til umsagnar, (Forseti hringir.) virkjunarkosti, sem getið er í þessari þingsályktunartillögu, það er ekki eins og það sé verið að fara að virkja. Við erum að senda þessa kosti, sem voru færðir handvirkt úr (Gripið fram í.) nýtingarflokki yfir í biðflokk, í umsagnarferli.