144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[11:14]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er algjör samstaða í atvinnuveganefnd um þetta mál (Gripið fram í: Ha?) (Gripið fram í: Ha?) — í meiri hlutanum, fyrirgefið, algjör samstaða í meiri hlutanum um þetta mál og ætti ekki að koma neinum hér á óvart. Að vera að kalla til þá varamenn sem kallaðir voru á fundinn, það er búið að gefa skýringar á því. Eins og þingmenn vita þurfa þingmenn oft að bregða sér af fundi af ýmsum ástæðum.

Ég held að það fari fyrst og fremst í taugarnar á minni hlutanum í þinginu að við getum staðið saman, það var ekki svo oft sem það þekktist á síðasta kjörtímabili að samstaða væri um málin; þessi mál voru handvirkt flutt til baka inn í ráðuneytið og unnin í skúmaskotum, fullt af virkjunarkostum teknir úr nýtingarflokki og settir í biðflokk. Það var óþolandi, þjóðin þoldi ekki þau vinnubrögð og þess vegna erum við að spóla því til baka. (Gripið fram í.)