144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[11:15]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að upplifa það að ríkisstjórnarmeirihlutinn hafi ekkert lært af mistökum sínum hér fyrir áramót. Það er eiginlega fyrir ofan og utan alla skynsemi að bjóða upp á að haldið verði áfram með þennan fruntaskap. Af hálfu stjórnarandstöðunnar var lögð á það skýr áhersla fyrir jól að fara yrði að lögunum sem sett voru um þennan málaflokk til að tryggja samstöðu um vernd og nýtingu sem er mikill þjóðarauður að hafi tekist að byggja. Það er athyglisvert að sjá að stjórnarmeirihlutinn er staðráðinn í að spilla þeim þjóðarauði og fara illa með hann.

Af því að hv. þm. Páll Jóhann Pálsson var að spyrja um skilgreiningu á einhverju sem gæti verið samkomulag eða málamiðlun þá felst það auðvitað í því að fara að þeim lögbundna ramma sem búið er að samþykkja hér með á sjötta tug atkvæða á sínum tíma og fylgja honum í einu og öllu.