144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

aldurstakmarkanir í framhaldsskólanám.

[11:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra kemur hér með mér liggur við að segja furðulegar skýringar sem halda engu vatni. Hann hangir í því að innritað var eftir ákveðinni forgangsröð samkvæmt reglugerð sem sett var af forvera hans, Katrínu Jakobsdóttur. Engum var meinað um aðgang að framhaldsskólunum á grundvelli þeirrar forgangsröðunar. Það er listi yfir í hvaða röð fólk er tekið inn, ekki í hvaða röð því er meinað um aðgang að skólum.

Það sem hæstv. ráðherra hefur nú breytt er að setja þá reglu að meina fólki yfir 25 ára aldri aðgang að framhaldsskólum í bóknámi. Það er alvarleg aðför að jafnrétti til náms. Það eru engin sambærileg úrræði í boði sem kosta jafn lítið og framhaldsskólinn fyrir fólk yfir 25 ára aldri. Og hæstv. ráðherra neitar að svara hér þeirri spurningu minni.

Það er athyglisvert að hann er einn á báti í þessu efni. Forstöðumaður menntamála hjá Samtökum atvinnulífsins, forveri hans í starfi, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, vakti athygli á þessari öfugþróun hjá hæstv. ráðherra, þannig að það er ekki bara ég sem sér á hvaða villuvegferð ráðherrann er, (Forseti hringir.) það eru fleiri.