144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

sameining háskóla.

[11:27]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur sett fram þá hugmynd að sameina þrjá háskóla í einn, þ.e. Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólann á Hólum og Háskólann á Bifröst. Sameina þessa þrjá háskóla í einn einkaskóla, tveir opinberir háskólar sameinaðir við einn einkaskóla og úr því á að verða einn háskóli á landsbyggðinni.

Ég spyr: Hvað varð um þau áform sem hafa verið uppi og voru sett í gang á undanförnum árum og var verið að vinna að, bæði í háskólunum og í stjórnsýslunni um sameiningu Háskólans á Akureyri og Háskólans á Hólum? Þar hefði fyrst og fremst náðst fram fagleg sameining, þ.e. varðandi námsframboð og kennslu, og auðvitað einhver fjárhagsleg hagræðing fram í tímann. Ég spyr hvaða áhrif slík sameining, sem stendur til að gera af hálfu hæstv. menntamálaráðherra, hafi, þ.e. sameina þessa þrjá skóla sem allir hafa átt við mikla fjárhagslega erfiðleika að stríða í gegnum árin. Það verður ekki búið til nýtt líf úr þremur líkum. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Þessi sameining mun þurfa mikla peninga. Hún mun þurfa milljarða í upphafi til að koma skólanum á legg og mikla peninga síðan í framhaldinu. Hvaða áhrif hefur þetta til dæmis á landsbyggðarháskóla líkt og Háskólann á Akureyri sem hefur þá sérstöðu að sinna landsbyggðinni umfram aðra háskóla, hefur þá sérstöðu að halda úti fjarnámi fyrir landsbyggðina umfram aðra háskóla? Ber þá ekki að líta á þær trakteringarnar (Forseti hringir.) sem Háskólinn á Akureyri fékk í fjárlögum á yfirstandandi ári í ljósi þeirra hugmynda sem hafa nú komið fram hjá hæstv. menntamálaráðherra (Forseti hringir.) um að stofna nýjan einkaháskóla á sama sviði nánast, til að þjóna landsbyggðinni, (Forseti hringir.) … kennsluháttum og þarf þá peninga til þess sem Háskólinn á Akureyri hefur ekki fengið? (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gæta að ræðutíma.)