144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

eftirlit með verðbreytingum.

[11:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er mín grundvallarafstaða að ekki sé þörf á opinberu eftirliti þegar kemur að þessum þætti mála. Ég er reyndar einnig á þeirri skoðun að íslenskir neytendur séu vel upplýstir og fylgist vel með. Ég trúi því að vegna þeirra miklu breytinga sem gerðar voru um áramótin og voru mjög mikið í umræðunni, mikið ræddar og vel kynntar, hafi neytendur sjálfir hafist handa við að fylgjast með verðlagi í landinu. Það er mjög brýnt að neytendur séu mjög vakandi fyrir því að kaupmenn og fyrirtæki verðleggi vöru sína rétt.

Við tókum auðvitað eftir því, í fréttaflutningi þegar þessar breytingar voru gerðar, að neytendur voru mjög vakandi fyrir því sem þar var á ferðinni, það voru ítrekaðar fréttir þar sem menn bentu á hluti. Ég er ekki sammála því, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt, að neytendur séu ekki vel upplýstir. Ekki var tekin ákvörðun um það í aðdraganda þessa að fara í sérstakt samstarf vegna þessa máls. Eins og ég segi er mín afstaða sú að markaðurinn hafi, og það held ég að hafi komið fram nú á síðustu vikum, fylgst vel með og einnig veitt nauðsynlegt aðhald.

Hitt er svo annað mál, og þar get ég svo sannarlega verið sammála hv. þingmanni, að samkeppni þarf að vera á sem flestum sviðum í landinu. Þar deili ég skoðun með henni. Víða mundi ég vilja sjá enn meiri samkeppni á tilteknum sviðum atvinnulífsins. Það er samt veruleg samkeppni hér einmitt á sviði verslunar og slíks reksturs þannig að þar sérstaklega sé ég ekki þetta vandamál. Ég tek þó undir það og er líka með þá grundvallarafstöðu að samkeppni sé neytendum og þjóðarbúinu til heilla.