144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

eftirlit með verðbreytingum.

[11:40]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Ég held að íslenskir neytendur séu eins vel upplýstir og þeir geta verið. Hins vegar hefur enginn einn neytandi yfirsýn yfir allan markaðinn. Verðbreytingarnar voru líka þannig að í sumum tilfellum voru þær mjög litlar, 1,5 prósentustig, en í öðrum tilfellum miklar þegar verið var að afnema vörugjöldin. Svo voru hækkanir á matvöru og jafnvel lækkanir á sykruðum mat.

Við erum heldur ekki á hverjum degi að kaupa bremsuklossa eða hvað það heitir. Þar af leiðandi er svo mikilvægt, og þess vegna eru til neytendasamtök og ýmsar stofnanir sem sinna hagsmunum neytenda, að halda utan um allar upplýsingarnar og miðla þeim til neytenda því að hver og einn neytandi hefur í sjálfu sér takmarkaðar upplýsingar.

Ég hefði talið þörf á þessu líka vegna þess að slíkt eftirlit veitir aðhald og það gerði það klárlega árið 2007. Það er aðhald fyrir seljendur þegar þeir vita af því. Eðlilega, segi ég, vilja seljendur selja vöru sína á eins háu verði og þeir komast upp með. Þannig er það. (Forseti hringir.)

Það er mikið tala um leiðréttingar. Ég mundi gjarnan vilja sjá leiðréttingar og ekki bara hjá þjóðkirkjunni (Forseti hringir.) heldur líka hjá Neytendasamtökunum sem hafa farið mjög halloka á síðustu árum.