144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

eftirlit með verðbreytingum.

[11:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég hefði kannski átt að geta þess í fyrra svari mínu að auðvitað eru aðilar á markaðnum sem fylgjast með. Þingmaðurinn nefndi réttilega Neytendasamtökin. Þau eru gríðarlega mikilvæg í því og hafa unnið mikið starf í gegnum árin. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það mjög vel sjálf. Eins eru það stéttarfélögin, ég get nefnt Alþýðusambandið sem hefur um árabil fylgst með verðlagi til hagsbóta fyrir sína félagsmenn og okkur öll, að sjálfsögðu.

Ég tel að það hafi einmitt komið í ljós um áramótin að íslenskir neytendur veittu markaðnum aðhald með því að vekja athygli á því hvernig málum fór fram. Auðvitað erum við ekki á hverjum einasta degi að kaupa tiltekna hluti en það er oft einmitt þegar við gerum það sem við förum sérstaklega á stúfana og gerum verðsamanburð.