144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

náttúrupassi og gistináttagjald.

[11:44]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns að stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar lagði nýverið fram tillögur sem miða að því að frekar skuli gerðar breytingar á gistináttagjaldi en að fara að þeim tillögum sem ég hafði unnið að og voru ekki komnar fram á þeim tíma. Þær höfðu meðal annars verið unnar í góðu samstarfi og samráði við greinina. Það er nú samt þannig að þessi stjórnarsamþykkt samtakanna er ekki eins og þingmaðurinn sagði hér, að við hana sé fullur stuðningur innan samtakanna. Þvert á móti hefur nú á síðustu dögum og vikum komið fram mikil andstaða við þá leið. Nú fyrir helgina andmæltu 17 fyrirtæki innan samtakanna þeirri leið og óskuðu eftir því að samtökin færu aðrar leiðir í þeim efnum. Það lýsir kannski málinu í hnotskurn. Það er engin ein leið algjörlega gallalaus til þess að stuðla að tryggum og traustum fjármögnunarleiðum í þessu efni. Ég er fyrsta manneskjan til að viðurkenna það. Ég fór í gegnum þær hugmyndir, þær tillögur og þær skýrslur, sem meðal annars hafa verið lagðar fram af hálfu Samtaka ferðaþjónustunnar, af samráðsvettvangi um aukna hagsæld, af McKinsey & Company, af Boston Consulting Group, af hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar o.s.frv., og fór í gegnum öll rök og kosti og galla. Ég komst að þeirri niðurstöðu sem ég hef nú lagt fram til þings. Nú er það þingsins að taka málið fyrir, fara yfir þessi sömu sjónarmið, kalla eftir umsögn, (Forseti hringir.) skoðunum og afstöðu og ég trúi því að að því loknu muni okkur takast (Forseti hringir.) að leiða þetta mál til lykta þannig að öllum sé sómi að.