144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

náttúrupassi og gistináttagjald.

[11:48]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er í grundvallaratriðum rangt sem þingmaðurinn heldur fram, að þær breytingar sem felast í tillögum stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar feli ekki í sér auknar flækjur. Það er í grundvallaratriðum misskilningur hjá hv. þingmanni vegna þess að verið er að leggja til þess konar breytingar á gistináttagjaldinu að í fyrsta lagi mun það ekki skila þeim tekjum sem við þurfum til þess að standa að uppbyggingunni. Í öðru lagi er lagt til að gera breytingar sem felast í því að færa gjaldið frá því að vera á hverja gistináttaeiningu í það að vera gjald á hvern gest. Í þriðja lagi þarf að hækka gjaldið umtalsvert og til þess að ná tekjunum þarf jafnvel að hækka það mismunandi mikið eftir því hvað gistingin kostar. Þetta er því í grundvallaratriðum rangt hjá hv. þingmanni.

Ég hef ekki fallið frá þeirri hugmyndafræði sem ég og flokkur minn aðhyllumst um að einfalda skattkerfið, þvert á móti. Þess vegna er samhliða lagt til að gistináttagjaldið verði afnumið, sem er algjörlega í samræmi við ályktanir sem komið hafa fram á landsfundum míns flokks og ég vinn algjörlega í samræmi við stefnu hans.