144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

samgöngumál.

[11:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hvatningu hv. þingmanns í þessum efnum. Mér er vel kunnugt um það að víða á Vestfjörðum, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum, búa heimamenn við það sem við köllum fyrstu kynslóð þjóðvega. Það er nokkuð sem við getum ekki búið við til lengdar, það er alveg vitað og ég fellst á það með hv. þingmanni.

Ég vil ítreka vegna þessa og hennar orða það sem ég sagði áðan, að nú er stefnumörkun af minni hálfu í gangi og hún mun að sjálfsögðu fela í sér þá forgangsröðun sem ég vil leggja til málaflokksins, þannig að þótt ég tali með almennari hætti núna er alveg ljóst að orð mín verða mun skýrari eftir því sem nær dregur lokum á þeirri vinnu.