144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil benda á að þegar óvönduð vinnubrögð voru höfð uppi hjá Reykjavíkurborg varðandi skipan í mannréttindaráð þá stigu fram forustumenn þess flokks sem í hlut átti, þ.e. forustumenn Framsóknarflokksins, og réttu af kúrsinn. Er ekki rétt að formaður Framsóknarflokksins eða formaður Sjálfstæðisflokksins stígi hér fram — þar sem hv. þm. Jón Gunnarsson er sjálfstæðismaður — og leiðrétti kúrsinn? Þetta er ekki hægt að vinna við þær aðstæður að menn fari endurtekið í sama farið. Og þegar málið fór á sínum tíma til atvinnuveganefndar lagði ég til sem varaformaður atvinnuveganefndar að það færi frekar til umhverfis- og samgöngunefndar því að þar væri fagþekking. Menn sóru það af sér og sögðu að það væri næg fagþekking í atvinnuveganefnd. En mér finnast þessi vinnubrögð sýna að hún sé því miður ekki til staðar hjá meiri hluta nefndarinnar, því miður.