144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Svo virðist sem aftur séu hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Páll Jóhann Pálsson tveir einir á ferð; eða kannski þrír í meiri hluta atvinnuveganefndar. Það er enginn forustumaður ríkisstjórnarinnar eða forustumaður þingflokka stjórnarflokkanna sem lýsir ábyrgð á þessu athæfi á hendur sér. Ég kalla þess vegna aftur eftir því að það sé skýrt hvort þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson standa á bak við þessi vinnubrögð.

Ég neita satt að segja að trúa því vegna þess að hvernig svo sem skoðanir manna á virkjunarmálum eru þá geta allir verið sammála um að ákvörðun um að virkja Urriðafoss, einn af stærstu fossum í Evrópu, verður ekki tekin án þess að vera á dagskrá; og fyrir síðari umræðu um þingsályktunartillögu eins og það sé eitthvert aukaatriði. Það er auðvitað málefni af þeirri stærðargráðu að það verður að eiga eðlilegan aðdraganda og fá þrjár umræður hér í þinginu.