144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil nú fyrst taka undir með þeim þingmönnum sem hafa beðið um að farið verði yfir það í viðræðum við formenn þingflokka og í forsætisnefnd hvort ekki hafi verið farið að lögum á síðasta kjörtímabili þegar rammaáætlun var til umfjöllunar. Ég held að það væri gott að fá það.

Ég velti því líka fyrir mér, vegna þess að nú hafa forustumenn ríkisstjórnarinnar kappsamlega lýst því yfir undanfarið að þeir ætli aftur að efna til ófriðar, sem þeir voru slegnir út af með í fyrra, út af umsókn um aðild að Evrópusambandinu, hvort þeir standi líka á bak við það upphlaup sem er hér í dag. Við þurfum eiginlega að fá það á hreint hvort forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson og hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ætli bara að vera í þeim mesta ófriði sem þeir geta yfirleitt fundið hér á Alþingi.