144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Fram hafa komið, finnst mér, athyglisverðar hugmyndir um það hvernig ríkisstjórnarmeirihlutinn skipar fólki til starfa; að það hafi kannski einmitt verið út af því að stunda átti vinnubrögð af þessu tagi sem ríkisstjórnarmeirihlutinn vildi ekki setja rammaáætlunina í umhverfis- og samgöngunefnd eins og vera ber. Kannski það og kannski ráðherraskiptin nú um áramótin hafi líka verið til þess að fá í sæti umhverfisráðherra einhvern sem samþykkti það sem fyrir hana væri lagt. Ég trúi því nú samt ekki, virðulegi forseti, og ég vonast til að hæstv. umhverfisráðherra komi hingað sem fyrst til að bera af sér þann grun eða hvað við köllum það; ég held að það sé nú bara út í hött að halda það.

Ég vil líka taka undir það, sem hefur komið hér fram, að það er ekki gott að vera með mál af þessu tagi utan dagskrár þegar tekið er tillit til stærðar þingflokks pírata. Þeir hafa ekki einu sinni tækifæri til að skipta störfum með sér þannig að þeir sitji þá fundi sem skipta meira máli en aðrir.