144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera alvarlegan ágreining við hæstv. forseta um mat hans á þingtæki þessarar framgöngu. Það er mjög sérkennilegt ef það þarf að breyta stjórnarskrá til að binda stjórnarmeirihlutann hér við lögformlegt ferli sem samþykkt hefur verið með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi, ef menn virða ekki grundvallarsamskiptareglur og verklagsreglur sem búið er að marka í lög og ganga síðan fram með fruntaskap og beita fyrir sig stjórnarskránni og að almenn lög stöðvi ekki rétt samkvæmt stjórnarskrá.

Ég ítreka líka beiðni mína frá því fyrir hádegi. Þegar þessi fruntaskapstillaga kom fram í haust kom reyndar alveg í ljós að hæstv. fjármálaráðherra hafði mikinn áhuga á því að styðja þessa furðulegu framgöngu. En þá bjuggum við svo vel að hafa umhverfisráðherra sem stóð í lappirnar og var mjög fljótur að slökkva á þessari tilraun til valdníðslu, hæstv. núverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Ég spyr þess vegna sérstaklega nýskipaðan hæstv. umhverfisráðherra vegna þess að hún er í salnum: Er hún ekki sama sinnis og vill hún ekki stöðva þessa framgöngu? Eigum við að trúa því að það hafi orðið (Forseti hringir.) afstöðubreyting hjá umhverfisráðherra Framsóknarflokksins og að núna ætli menn einfaldlega að kyssa á höndina í þessum fruntaskap?