144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tel alveg sérstaklega mikilvægt þegar rætt er um grundvallarmál eins og það sem forseti hefur hér kveðið upp úr með að menn haldi aftur af sér vegna ágreinings um einstök þingmál og yfirgefi ekki prinsippumræðuna. Að sjálfsögðu hlýtur það að vera niðurstaðan, sem forseti hefur farið yfir, að þingmenn séu óbundnir af tillögum sem koma inn í þingið hvað það varðar að koma fram með sínar eigin breytingartillögur. Það hlýtur að vera svo.

Í því lagaumhverfi þar sem fjallað er um rammaáætlunina er það hins vegar svo að frá upphafi var gert ráð fyrir að menn leituðu sátta um niðurstöðuna. Sú sátt var rofin á síðasta kjörtímabili þegar ekki var fylgt tillögum verkefnisstjórnarinnar heldur málið tekið í sérstakan pólitískan snúning áður en það var lagt fyrir þingið. (Gripið fram í: Rangt.) (KaJúl: Þetta er rangt.) Það getur aldrei verið niðurstaðan (Forseti hringir.) að þinglega meðferðin á málum eins og þessu sé eingöngu formsatriði þar sem engar breytingar má gera. Það getur ekki verið niðurstaðan.