144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:31]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar hafði hér lög að mæla þegar hann bar fram þá kjarnaspurningu hvort hæstv. forseta þyki eðlilegt að menn taki jafn stór mál og þessi og afgreiði með einhverjum hætti, eins og í þessu tilfelli að senda til umsagnar ákveðna virkjunarkosti milli gesta um annað mál á dagskránni. Það var ekki einu sinni á auglýstri dagskrá. Þegar hæstv. forseti lemur í bjölluna undir þessari spurningu hv. þingmanns finnst mér frekar að hann hefði átt að taka sér tíma og hugsa virkilega um það hverju hann ætlar að svara þessu. Þetta er með öllu ólíðandi og kristallar vinnubrögðin í öllu þessu máli.

Jú, það er rétt að í öllum tilfellum höfum við þingmenn rétt á því að gera breytingar og leggja það til sem við viljum hér á Alþingi. En við höfum ekki bara í þessu máli heldur svo mörgum öðrum sett lög sem eru skapalón um það með hvaða hætti við setjum okkur faglegan ramma til að undirbúa ákvarðanatöku hér. (Forseti hringir.) Um það snýst rammaáætlun og lögin um rammaáætlun, skapalón um faglega umgjörð til að styrkja ákvarðanatöku alþingismanna þannig að hún fylgi ekki hentistefnu, hentisjónarmiðum eða duttlungum hvers og eins líkt og hér er um að ræða.