144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. umhverfisráðherra sagði áðan að rétt væri að bíða eftir tillögum verkefnisstjórnar um þá kosti sem ættu að fara í nýtingu eða vernd eða vera áfram í biðflokki. Ég tek undir þau orð. Eigum við ekki bara að bíða eftir því? Var ekki kjarni málsins að við gerðum nákvæmlega það?

Hvað á að fara með þessari hugmynd rafrænt út í loftið? Hvað liggur á bak við hana, hvar er rökstuðningurinn? Þetta mál er ekki með neinum rökstuðningi. Þegar mál fara til umsagnar fá umsagnaraðilar venjulega einhvern rökstuðning með málinu. Ekkert slíkt liggur fyrir. Við skulum bara halda því til haga að fyrrverandi umhverfisráðherra bað um að fara með átta kosti til athugunar hjá verkefnisstjórn. Hún lagði til einn kost vegna þess að hinir voru ekki tilbúnir og hæstv. þáverandi umhverfisráðherra samþykkti það og tók undir að það þyrfti að rannsaka og kanna hina hlutina betur. Og gerum nú (Forseti hringir.) eins og núverandi umhverfisráðherra segir, (Forseti hringir.) bíðum eftir tillögum verkefnisstjórnar — sem koma hvenær? Það kemur í ljós þegar vinnunni vindur áfram, en við skulum gera það. Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra, sem nýtekin er við þessu starfi, (Forseti hringir.) að standa nú með umhverfismálum og að það sé farið eftir lögum en geri ekki eins og hæstv. fjármálaráðherra, að tala (Forseti hringir.) lögin niður og segja í raun (Forseti hringir.) að lög um rammaáætlun séu ekki í gildi.