144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:49]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. umhverfisráðherra hafi akkúrat sagt það áðan sem sýnir og sannar að sá ferill sem varð uppvíst um í meiri hluta atvinnuveganefndar í morgun er ólöglegur. Hæstv. ráðherra nefndi það nefnilega að Orkustofnun hefði sent ráðuneyti hennar tillögu að virkjunarkostum til að vinna í verkefnaáætlun — og hvaða virkjunarkostir skyldu vera þar inni? Allir umræddir fjórir virkjunarkostir sem meiri hlutinn lagði til í morgun.

Virðulegi forseti. Þarf eitthvað frekar vitnanna við? Orkustofnun er að fara þann rétta feril sem lögin segja til um og hæstv. umhverfisráðherra var að segja okkur áðan hvernig þetta ætti að ganga fyrir sig. Það er aftur annað mál hvernig staðið er að því að flytja tillögur í nefndum. Þessi tillaga kom ekki fram skriflega og ég spyr hæstv. forseta: Hvaða tillögu á að senda út til umsagnar? Á að fylgja með henni greinargerð eins og fylgir í þingsályktunartillögu um Hvammsvirkjun sem við erum að vinna að eða á að fara út í eitthvað bara (Forseti hringir.) og láta nokkur blöð fylgja með?

Virðulegi forseti. Þetta snýst nefnilega um heiður Alþingis. Þetta snýst um að fara að lögum um rammaáætlun. Þetta snýst ekki núna um þingsköp.