144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:50]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að mér finnst lög um rammaáætlun skipta máli og ég er sannfærð um að við getum verið sammála um það. Það er gefinn svo stuttur ræðutími og ég hef greinilega ekki verið nógu skýr því að mér finnst að ákveðnir þingmenn hér inni hafi ekki skilið hvernig þetta ferli er. Ég sagði áðan að við værum á tímamótum, núna er að fara í gang ákveðið ferli af því að Orkustofnun var að senda verkefnisstjórn 88 kosti, ekki ráðuneytinu. Ég kem ekki nálægt því. Verkefnisstjórnin fékk kostina, sem er vissulega ráðgefandi fyrir ráðherra, en ekkert var sent til mín. Við skulum bara hafa það á hreinu. Verkefnisstjórnin hefur tjáð mér að núna fyrst geti hún virkilega unnið vel þegar hún er búin að fá alla þessa kosti til meðferðar. (SSv: Bíðum eftir þessu.)

Formaður verkefnisstjórnar, ég vitna í þetta viðtal sem var (Forseti hringir.) við hann í blöðunum í morgun, getur um það að hann muni síðar koma með (Forseti hringir.) tillögur til ráðherra þegar hann er búinn að flokka þessa kosti. Mér finnst það gott ferli og ég hlakka til þeirrar samvinnu og þeirrar vinnu fram undan þetta árið og hlakka líka til að geta birt fyrir þingheimi að ári (Forseti hringir.) þá kosti sem verða niðurstaðan.