144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:57]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Með þeim efnisrökum sem hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, færði fram áðan er eins hægt að flytja Gullfoss á milli flokka og senda tillögu um virkjun á Gullfossi til umsagnar núna og samþykkja í seinni umræðu. Svo alvarleg valdníðsla felst í þeirri hugmyndafræði sem Sjálfstæðisflokkurinn ber á borð fyrir okkur. Ég fagna manndómnum í hæstv. umhverfisráðherra sem talaði skýrt um það að bíða ætti eftir tillögum verkefnisstjórnar á næsta ári. En ég hlýt að lýsa ábyrgð á hendur formanni Sjálfstæðisflokksins að ekki sé hægt að gera við þann flokk pólitískt samkomulag um grundvallarreglur sem bindi alla flokka, um almenn lög sem bindi hendur okkar í pólitísku samkomulagi til að skapa frið í landinu. Ég hlýt að lýsa ábyrgð á hendur Sjálfstæðisflokknum fyrir að verja það að menn skuli úr launsátri vega að samkomulagi um náttúruvernd í landinu og að menn skuli láta sig hafa það að flytja þingmál sem er ekki til, flytja leynimál og senda leynimál sem enginn hefur séð til umsagnar. Þetta er (Forseti hringir.) fáheyrt og það eru ekki fordæmi fyrir þessu í íslenskri þingsögu. Það er (Forseti hringir.) dapurlegt að Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) skuli með þessum hætti brjóta allan frið (Forseti hringir.) um stjórnmálastarfsemi í landinu.