144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er vissulega rétt að ég sem þingmaður get lagt hér fram alls konar tillögur. Ég get lagt til að þjóðartungumálið eigi að vera sænska eða fólk eigi að vera í nærbuxunum yfir buxunum, svo ég vitni í mjög skemmtilega bíómynd eftir Woody Allen. Ég get líka lagt til að það skuli virkja Gullfoss. Spurningin snýst um þetta: Mundi mér vera bent á það á einhverjum tímapunkti af hæstv. umhverfisráðherra eða forseta Alþingis eða einhverjum öðrum að það væri ákveðið ferli, ákveðinn lagabálkur í landinu sem snerist um það hvernig við ákveðum að virkja Gullfoss og ég væri kannski, þó ekki væri nema kurteislega, beðinn um að virða þann lagabálk? Búum við við það umhverfi?

Ef ríkisstjórnin vill virkja meira, ef hún vill setja fleiri virkjunarkosti í nýtingarflokk, þá eru sérstök ákvæði í þeim lögum sem ég er að tala um sem lúta að því hvernig hægt er að gera það, (Forseti hringir.) hvernig hægt er að færa virkjunarkosti milli flokka, hvernig hægt er að breyta tillögu (Forseti hringir.) verkefnisstjórnarinnar. Ráðherra getur gert (Forseti hringir.) slíka tillögu, farið með hana í umsagnarferli og þar (Forseti hringir.) fram eftir götunum. Af hverju ekki? (Forseti hringir.) Af hverju (Forseti hringir.) ekki að virða lögin? Það er grunnspurningin sem stendur eftir í þessu máli.