144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Stjórnarliðar, svo sem hæstv. umhverfisráðherra, geta ekki látið eins og rammaáætlun skipti þá máli ef þeir eru sáttir við þetta ferli. Að láta þannig er í reynd að spyrja þingmenn hér inni hvort þeir séu bara vitlausir. Það er ekki hægt, það er fullkomin rökleysa.

Hvergi finnst tillagan á riti. Jú, þarna voru fundarmenn og ég hef spurt nokkra þeirra og er búinn að leita að þessari tillögu. Hún virðist ekki vera til þannig að ég velti fyrir mér hvað hafi verið sent til umsagnar og til hverra. Hvar finnur maður skjölin um þetta? Hvað eigum við að gera hérna ef við ætlum að ræða þetta efnislega? Þetta er farið til umsagnar til aðila úti í bæ áður en þingheimur sjálfur fær að sjá plagg sem inniheldur hugmyndina. Ef þetta er lögmætt þingferli er nú aldeilis komið tæki hérna til að gera alls konar grallaraskap á hinu háa Alþingi og er nóg af tólum fyrir. Ef þetta heita góð vinnubrögð velti ég fyrir mér hvað í ósköpunum menn kalla vond vinnubrögð. Nú hef ég ekki einu sinni tíma (Forseti hringir.) til að fara enn og aftur út í dagskrána sem er (Forseti hringir.) annað hneyksli við þetta. Þetta er fáránlegt mál, virðulegi (Forseti hringir.) forseti. Ef þetta er í lagi, hvað er það ekki?