144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Af því að hér er mikið rætt um fyrrverandi kjörtímabil og hvernig vinnubrögð voru þá viðhöfð skulum við fara aðeins yfir það. Samkvæmt hinu löglega ferli kom verkefnisstjórnin með tillögur til þáverandi iðnaðarráðherra, þeirrar sem hér stendur, og þáverandi umhverfisráðherra um það með hvaða hætti hún legði til að flokka skyldi virkjunarkosti í bið, nýtingu og vernd. Þessi tillaga fór óbreytt í 12 vikna umsagnarferli. Að því loknu var ljóst að örfáir af þeim tugum virkjunarkosta sem í tillögunum voru fengu mjög miklar og margar athugasemdir. Þá voru góð ráð dýr hjá pólitískum ráðherrum með að taka ákvörðun um það með hvaða hætti skyldi hantera umsagnirnar. Ákvörðun var tekin um að þeir kostir sem fengu mesta og alvarlegustu gagnrýnina skyldu fara í biðflokk og þar með verkefnisstjórnin beðin um að meta þessa kosti upp á nýtt með tilliti (Forseti hringir.) til þeirra umsagna sem komu út úr þessu lögboðna ferli. Þetta var (Forseti hringir.) nú allur óskapnaðurinn, virðulegi forseti. Og út úr (Forseti hringir.) verkefnisstjórninni kemur síðan tillaga um einn af þessum kostum. Þá ætla menn að láta vaða og skella (Forseti hringir.) nokkrum með, meira að segja kostum (Forseti hringir.) sem ekki einu sinni hafa fengið umfjöllun.