144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. umhverfisráðherra sagði áðan að bréf Orkustofnunar, sem dagsett er 20. janúar, fyrir tveimur dögum, væri ekki til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Það er rangt. Þetta bréf er stílað á umhverfis- og auðlindaráðuneytið og verður bókað inn í málaskrá ráðuneytisins. Það er um túlkun Orkustofnunar og þann skilning sem þeir hafa á lögum um rammaáætlun og leggja þar fram samkvæmt lögum einhverja hellingskosti, eina 88, ef ég man rétt það sem ráðherrann sagði áðan. Það er hið lögformlega ferli. Og jafnframt það sem fyrrverandi umhverfisráðherra gerði með bréfi sínu til verkefnisstjórnar, fékk vinnu verkefnisstjórnar að tillögu en treysti sér ekki til að ganga gegn tillögu verkefnisstjórnarinnar og lagði þess vegna til bara einn kost. Þetta er önnur staðfesting á því að sú leið sem hér er boðuð er ekki í samræmi við rammalöggjöfina.

Það er grundvallaratriði, virðulegi forseti. Þetta snýst um hvort stjórnsýslan fái frið til að vinna eftir þeim lögum (Forseti hringir.) og fara í þetta venjulega ferli sem hefur verið skrifað í lög eða hvort Alþingi (Forseti hringir.) tekur hér fram fyrir það.