144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér var farið yfir það að meiri hluti nefndarinnar hefði brotið 5. gr. laga um rammaáætlun þar sem fjallað er um biðflokk. Ég tel alls ekki svo vera. Þarna er farið yfir það hvaða kostir eru í biðflokki, þeir þurfi meiri skoðun. Hvaða málsmeðferð er nefndin að beita hér? Hún er að setja þetta til frekari skoðunar. Hún er að setja þetta í sama umsagnarferli og kveðið er á um í lögum að ráðherra skuli gera ef hann geri breytingar á niðurstöðu rammaáætlunar með sama hætti og gert var á síðasta kjörtímabili.

Hvað er það sem verður sent til umsagnar? er spurt hér. Það er auðvitað sú tillaga sem kom fram í nefndinni í morgun, var samþykkt af meiri hluta nefndarinnar og hefur væntanlega verið send núna nefndarmönnum ásamt umsagnarlista, og það hef ég hugsað mér að verði á dagskrá löngu fyrirhugaðs nefndarfundar sem verður á morgun. Sagt er að aðkoma almennings sé svo óljós, hún sé tryggð í lögunum á fyrra stigi. Við erum nákvæmlega að leita hér til allra sem að málinu vilja koma, (Forseti hringir.) leita til allra sem vilja veita umsögn um þetta mál, taka þá gesti fyrir nefndina sem vilja koma og ræða þessi mál. Á grunni þeirrar niðurstöðu munum við byggja (Forseti hringir.) okkar tillögu að lokum. Þannig er nú málsmeðferðin. (Forseti hringir.) Það verður að hafa hér það sem sannara reynist.