144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:11]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það sem mér finnst alvarlegt við þetta mál er, eins og komið hefur ítrekað fram og kom hér líka fram fyrir áramót, hið óformlega ferli í kringum það, það sé ekki til neitt skjal og engin raunveruleg breytingartillaga sem ég get skoðað. Og að það hafi ekki verið sett á dagskrá fundarins finnst mér ótrúlega skrýtið út af því að þetta eru nákvæmlega sömu umræður og við áttum hér í nóvember. Þá kom upp sú staða að hv. þingmaður var gerður afturreka með slíka tillögu.

Ég skil ekki hvað hefur breyst. Ég velti fyrir mér hvort hér sé svona hinn hefðbundni pólitíski leikur að á endanum verði samþykkt að taka tvær í staðinn fyrir fimm, eða þrjár í staðinn fyrir fimm eða eina. Mér finnst svona vinnubrögð óásættanleg. Ég óska eftir því eins og áðan að fá skýr svör frá hæstv. fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins um hvort búið sé að (Forseti hringir.) aftengja rammann og hvort gera eigi breytingartillögu við þingsályktunartillögu sem er ekki einu sinni á dagskrá þingsins. Hvers konar vinnubrögð eru þetta, forseti? (Forseti hringir.) Er það þannig að við eigum bara að gefa skít í þingsköpin (Forseti hringir.) og það verklag sem við erum vön (Forseti hringir.) að hafa hér á þingi? Ef svo er þá er ég alveg tilbúin í það, forseti, (Forseti hringir.) ég er alveg tilbúin í að gefa skít í þessi þingsköp ef það eru skilaboðin sem eru á boðstólum frá forseta. (Forseti hringir.) Eru það skilaboðin, forseti, að við eigum ekki að virða þingsköpin?