144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég hlýt að segja að mér fannst úrskurður virðulegs forseta svolítið í véfréttastíl. Hann sagði það sem við vitum öll að þingmenn geta borið fram breytingartillögur við mál á þingi, en hann svaraði ekki þeirri spurningu hvort sú vinnuaðferð sem við var höfð í morgun í atvinnuveganefnd samrýmist góðum þinglegum venjum heldur vísaði hann til þess að einhver tillaga yrði borin fram á fundi atvinnuveganefndar í fyrramálið. Hvað átti þingforseti við?

Samþykkir þingforseti þau vinnubrögð sem við voru höfð í atvinnuveganefnd í morgun? Getur þingforseti svarað mér því, já eða nei? Það er um það sem spurningin snýst. Hún snýst ekkert um það hvort við höfum leyfi til þess að bera fram breytingar eða ekki. En þurfa þær ekki að vera skriflegar, virðulegi forseti? Þurfa ekki aðrir að vita um hvað þær snúast? Þurfa menn í nefndum ekki að vita hvað á að vera á dagskrá daginn eftir?