144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem nú upp hér og hegg í sama knérunn og flokkssystur mínar, hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir og Ólína Þorvarðardóttir. Og ég vil fá að vita hvort hæstv. forseta finnist málsmeðferð formanns atvinnuveganefndar í lagi.

Við ákváðum það, minni hlutinn hér eftir kosningar, að vinna í samræmi við þingskapalög, breytingar sem voru gerðar á síðasta kjörtímabili, og taka þátt í stjórn nefndanna. Við höfum sinnt því af trúmennsku og leggjum okkur fram um það í nefndarstörfum að þau gangi sem greiðast fyrir sig og í sem mestum einhug.

Ef það er aftur á móti þannig að hér telst eðlilegt að setja stórmál á dagskrá án þess að það hafi verið boðað fyrir fram þá hlýtur minni hlutinn að endurskoða samvinnufýsi sína í nefndastarfinu og vera nokkuð harðari og meira á verði gagnvart bolabrögðum sem þykir sjálfsagt að beita (Forseti hringir.) og forseti Alþingis er núna að leggja blessun sína yfir.