144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:22]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Sá þingmaður sem hér stendur sat ekki á Alþingi á síðasta kjörtímabili en hefur setið hér í dag, eins og svo oft áður, undir þeirri umræðu að vegna þess að eitthvað hafi gerst á síðasta kjörtímabili hjá einhverjum þingmönnum þá sé í lagi að hafa ekki góða reglu á hlutum og brjóta hefðir og jafnvel lög.

Ég vil leggja mikla áherslu á að við hér á þingi virðum lög og ef við ætlum að leggja til tillögur eða koma á og samþykkja lög sem eru í trássi við önnur lög að við byrjum þá á því að leggja til að þeim lögum verði breytt.

Ég vil minna á að í 8. gr. þingskapa, í 5. mgr., kemur fram að forseti hefur umsjón með starfi þingnefnda og ég vil setja stórt spurningarmerki við það að svona stórt mál sé tekið á dagskrá utan dagskrár. Dagskrá er gefin út til þess að þingmenn geti undirbúið sig undir fundi nefnda og viti hvað sé á dagskrá.

Ef við höfum liðinn Önnur mál, þar sem hægt er að taka mál til dagskrár án þess að þingmenn viti af því fyrir fram, (Forseti hringir.) þá er eins gott annaðhvort að sleppa dagskránni, hafa allt undir lið sem héti þá bara Mál, eða að taka alvarlega til endurskoðunar að við séum með liðinn Önnur mál.