144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Óttar Proppé vitnaði hér einmitt í 8. gr. þingskapalaga, 5. mgr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Forseti hefur umsjón með starfi þingnefnda, sbr. II. kafla. Hann setur almennar reglur um fundarsköp nefndanna og starfsaðstöðu, að höfðu samráði við formenn nefnda og þingflokka. Nefnd getur leitað úrskurðar forseta um skilning eða framkvæmd reglna sem settar hafa verið um störf nefnda.“

Ég legg því til að á grundvelli þessa ákvæðis þingskapalaga setjist hæstv. forseti niður með atvinnuveganefnd og fari yfir vinnubrögðin, hvernig tillagan var lögð fram og úrskurði um það hvort þetta teljist vinnubrögð sem séu til sóma fyrir Alþingi, hvort þau séu til eftirbreytni og hvort jafnvel sé hér verið að skapa nýja reglu.