144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Það hefur þó gerst í þessari umræðu í dag og síðan í morgun að nokkrir hlutir hafa skýrst, þó helst það að það er ekki við hv. þm. Jón Gunnarsson einan að sakast um það í hvaða ferli þetta mál er komið. Það skýrðist með því að hér mætti allt ráðherraslektið eins og það lagði sig eftir hádegi til að bakka málið upp og þingmenn stjórnarmeirihlutans sömuleiðis þannig að hv. þm. Jón Gunnarsson hefur verið sendur á vettvang með skilaboð frá ríkisstjórninni og stjórnvöldum, frá meiri hlutanum, um að svona skyldi málum háttað nákvæmlega (Gripið fram í.) eins og þarna er lagt til og frammígjamm hjá hæstv. félagsmálaráðherra undirstrikar það.

Það sem veldur hins vegar vonbrigðum í þessu máli er að þrátt fyrir að hæstv. forseti hafi á síðasta kjörtímabili, þá í stjórnarandstöðu, ekki legið á liði sínu við að gera þingstörf erfið og innleiða ýmsa ósiði, þá eru það vonbrigði að hæstv. forseti skuli ekki beita sér þó meira en hann hefur gert til að reyna að koma í veg fyrir það sem hér er að gerast og leita sátta í málinu þannig að (Forseti hringir.) allir geti þokkalega vel við unað.